top of page

Appforritarinn sem fékk sér takkasíma

Sep 17, 2024

3 min read

2

73

0




Okei okei en samt ekki.


Ég hef lengi hugsað um að fá mér takkasíma. Ég er virkilega háð snjallsímanum mínum, eins og flestir eru í dag. Og ég þoli það ekki.


Ég er háð samfélagsmiðlum, sérstaklega Facebook, YouTube, Snapchat og fréttamiðlum. Ég eyði líka ómældum tíma í að hlusta á hlaðvörp, viðtöl og hljóðbækur, og ég hef eiginlega ekki getað gert neitt án þess að hafa eitthvað í eyrunum.


Eins og með aðra fíkn er mjög erfitt að takmarka neysluna. Tímamörk á öpp? Ég einfaldlega lengi þau. Eyði þeim úr símanum? Ég fer bara í vafrann eða sæki þau aftur. Ég hef eytt Facebook af símanum mínum svona tuttugu sinnum, en það virkar ekki fyrir mig.


Kannski ætti ég bara að hætta þessu alveg og fá mér takkasíma. Fara aftur í “gamla tímann.” En þá koma þessi nútíma vandamál – fyrstu heims vandamál. Hvað ef ég þarf að komast í heimabankann á meðan ég er úti? Nota Google Maps? Ég er algerlega ratlaus án þess. Hvað með að leggja bílnum, sækja pakka í póstbox, eða skrá barnið veikt í leikskóla? Og síðan er það auðvitað myndavélin, sem ég vil alltaf hafa við hendi til að fanga falleg augnarblik.

Ég veit að það er alltaf hægt að finna leið, en þessar ástæður gera það erfitt fyrir mig að taka stóra skrefið í að fá mér takkasíma.


Svo er ég líka app forritari. Get ég verið app forritari sem stendur undir nafni án þess að hafa tæknina í vasanum? Tæknin í dag er ótrúleg og getur sparað ómældan tíma, sem er mikilvægt fyrir þriggja barna vinnandi móður eins og mig. Ég vil ekki flækja lífið meira en ég þarf.


En þá fann ég lausnina: app sem heitir The Balance Phone. Það er tiltölulega nýtt á nálinni og tekur yfir símann minn, svo ég kemst ekki í samfélagsmiðla, sem er minn helsti veikleiki. Appið lokar einnig á leiki, veðmálaöpp og klám, en það hefur aldrei verið vandamál fyrir mig. Og það sem skiptir máli er að það er ekki heldur hægt að fara í neitt af þessu í gegnum vafrann.


Þetta er nákvæmlega það sem ég þurfti – að geta nýtt alla frábæra kosti tækninnar án þess að missa fókus og eyða klukkutímum í samfélagsmiðla.


Ég get enn farið á fréttasíður og hef verið að nota appið Púlsinn meira síðan ég setti upp The Balance Phone. Púlsinn tekur saman fréttir frá helstu fréttaveitum Íslands á einn stað, svo ég þarf ekki að hoppa á milli síða í vafranum. Það gefur mér minna dópamín kikk.


Það sem The Balance Phone gerir öðruvísi en sambærileg öpp er að þeir notast við „blacklist“ kerfi þar sem þau loka á ákveðin öpp, frekar en að leyfa aðeins handvalin öpp með „whitelist“ kerfi. Þessi nálgun getur virkað vel, en hefur einnig sínar takmarkanir.


Eini gallinn er að þú getur ekki sérsniðið þetta sjálf. Kannski er það viljandi, til að einfalda upplifunina, en ég sakna þess stundum að geta sent myndir af börnunum til ömmu og afa í gegnum Snapchat eða skoðað hugmyndir af afmæliskökum á Pinterest. Að því sögðu eru það einu öppin sem ég sakna, en allt hitt er ég glöð að losna við.


Ég er ekki að fá borgað fyrir að tala um The Balance Phone eða Púlsinn – en kannski ætti ég að hafa samband við þá! Ég keypti mér lífstíðaráskrift af The Balance Phone fyrir €50 og er hæstánægð með niðurstöðuna.


Ég mæli með að skoða The Balance Phone, sérstaklega fyrir börn og þá sem eiga við samfélagsmiðlafíkn að stríða, eins og ég.


Sep 17, 2024

3 min read

2

73

0

Related Posts

Comments

Share Your ThoughtsBe the first to write a comment.
bottom of page