
Er internetið orðið "þriðji staðurinn"
Sep 17, 2024
2 min read
1
18
0

Í félagsfræði er oft talað um “þriðja staðinn,” sem er félagslegt, helst gjaldfrjálst umhverfi þar sem fólk getur slakað á og tengst öðrum – staður sem er hvorki heimili né vinna/skóli. Slíkir staðir hafa oft mikilvægu hlutverki að gegna, sérstaklega fyrir ungt fólk.
Ég hef orðið sérstaklega vör við skortinn á þessum stöðum fyrir unglinga og börn á aldrinum rétt fyrir unglingsár. Þau hafa fátt um félagslega staði þar sem þau geta hist og tengst hvert öðru. Vissulega eru íþróttir til staðar, en þær kosta oft peninga og eru yfirleitt undir eftirliti fullorðinna.
Það virðist líka sem við, hin fullorðnu, séum markvisst að fækka stöðum þar sem börn og unglingar geta hist, því við verðum þreytt á því að sjá og heyra í þeim.
Sem dæmi má nefna að síðasta sumar tók Reykjavíkurborg ákvörðun um að fjarlægja körfuboltakörfur við Seljaskóla, þar sem ungmenni spiluðu körfubolta fram á kvöld með tilheyrandi hávaða. Körfurnar voru hins vegar settar aftur upp eftir mikil mótmæli.
Hægt er að lesa frétt um málið hér.
Þetta er ekki einsdæmi. Opnunartími sundlauga hefur verið styttur um helgar, úr klukkan 22:00 niður í 21:00, og sum bókasöfn munu vera lokuð í þrjár vikur yfir sumartímann.
Við sjáum einnig krakka hanga í stigagöngum í fjölbýlishúsum eins og Vallakór 4 í Kópavogi, Hverafold 1-3 í Grafarvogi, eða í Egilshöllinni – með tilheyrandi sóðaskap og hávaða, sem fer gjarnan í taugarnar á fullorðnum.
En hvar eiga þessi börn annars að vera? Þau eru ekki síður hluti af samfélaginu en við. Þessi skortur á opnum svæðum fyrir börn og unglinga ýtir þeim enn frekar inn í samfélagsmiðla, þar sem þau loka sig inni í herbergjum sínum. En myndi þetta breytast ef þau hefðu fleiri staði til að hittast á? Hvernig væri samfélagið ef krakkarnir hefðu fleiri aðgengilega staði til að eiga samskipti?
Það er kominn tími til að hætta að fjarlægja alla staði þar sem börnin okkar geta hist og tengst hvort öðru, sérstaklega á sumrin þegar þau eru í sumarfríi. Í staðinn ættum við að leggja áherslu á að skapa fleiri svæði þar sem þau geta slakað á, leikið sér og átt samskipti. Það er samfélagsleg skylda okkar að tryggja að börnin okkar hafi heilbrigðan stað til að vaxa og þroskast í félagsskap hver við annað.